141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:51]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég byrji á að svara spurningu sem kom í lokin hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni þá er ég í rauninni sammála honum. Ef ég ætti að semja um eitthvað og miðla málum mundi ég taka vatnsföllin fram fyrir jarðvarmaorkuna sem við vitum allt of lítið um. Starfsemin á Hellisheiði hefur verið ein samfelld tilraunastarfsemi áhugamanna um verkfræði og mannvirkjagerð og það er til vansa. Ég gæti því miðlað málum þar og mundi setja vatnsföllin framar jarðvarmanum. Við erum í glórulausu happdrætti þar.

Hvað Jökulsárnar í Skagafirði varðar komu fram þung rök fyrir því að þær voru settar í biðflokk. Ég féllst á þau rök. Miðað við ræðu mína mun ég síðan, þegar vinnu við það lýkur, taka afstöðu, þ.e. þegar biðflokksvinnunni lýkur. Mér finnst aðferðafræðin góð; orkunýtingarflokkur, biðflokkur, verndarflokkur. Þar sem skortir á upplýsingar þegar náttúran þarf að njóta vafans þá fari það í biðflokk. Það er ekki verið að setja loku fyrir það endanlega.

Menn þrástagast á því að tekin hafi verið pólitísk ákvörðun eftir rammaáætlunarvinnuna. Það varð breyting þar á af hálfu tveggja hæstv. ráðherra en ég hygg að hin pólitíska málamiðlun, og málamiðlanir, hafi einkennt starfið í nefndinni á lokametrunum og að faglegu sjónarmiðin sem lágu að baki í lögum nr. 48/2011 hafi vikið. Hafi vikið fyrir þröngri túlkun á lögunum og fleira. Ég vakti athygli á því í ræðunni, hv. þingmaður, að verkefnisstjórnin var nokkuð undrandi þegar flokkunarhópurinn kom með sínar endanlegu niðurstöður. Þar hafði eitthvað gerst í millitíðinni frá því að málið kom frá verkefnisstjórninni og þegar þessi þrengri hópur tók við. Þá urðu einhverjar, ég segi ekki eldglæringar en það urðu breytingar og menn í verkefnisstjórninni urðu, sem ekki voru í flokkunarhópnum, undrandi á niðurstöðunni. (Forseti hringir.)