141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:58]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þær breytingartillögur sem hafa verið gerðar hafi ekki rofið eina einustu sátt. Ef til vill hafði sáttin að einhverju leyti verið rofin í vinnu verkefnisstjórnarinnar áður. Ég nefndi það í ræðu minni hvernig formannahópurinn, flokkunarhópurinn, vann á lokametrunum án þess að verkefnisstjórnin öll kæmi þar að og hluti verkefnisstjórnar varð undrandi.

Rammaáætlun er ekki hin endanlega sátt. Hún er eitt skref. Sjónarmiðið var að setja ætti meira í biðflokkinn, minna í verndarflokk og minna í orkunýtingarflokk og halda innan biðflokksins sáttaumleitunum áfram að ná niðurstöðu. Við erum bara að vinna fyrsta skref eða annan áfanga og það kemur að þeim þriðja. Ég nefndi það sem sérstök rök fyrir því að fylgja — og ég fylgi í breytingartillögum mínum og hv. þm. Lilju Mósesdóttur algjörlega þeim faglegu sjónarmiðum, að setja inn í biðflokkinn þannig að hægt sé að íhuga þá kosti til hlítar á grundvelli nægilegra gagna sem vantaði svo oft.

Það er því engu stefnt í voða. Biðflokkurinn er líka settur upp til sátta við komandi kynslóðir að mínu mati. Ég ítreka það enn og aftur að orkufyrirtækin hafa úr nógu að moða í dag. Og svo eru kostir framtíðarinnar svo miklir eins og djúpborun sem ég nefndi, vindaflið, sjávarorkan og margt fleira. Ég tala nú ekki um það, eins og upplýst var fyrir nefndinni, að hægt er að nýta virkjanir sem fyrir eru mun betur og eru þegar komnar af stað hugmyndir um það varðandi Búrfellsvirkjun og fleiri virkjanir á Þjórsársvæðinu sem eru mun styttra komnar. Það hefur líka komið fram að hægt er að stækka Kárahnjúkavirkjun umtalsvert þar sem svæðið er þegar raskað en það kalli hins vegar á talsvert miklu meiri framkvæmdir.

Með því að setja stóran biðflokk þá erum við ekki að (Forseti hringir.) raska neitt stöðu orkufyrirtækja eða virkjana í framtíðinni.