141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður er tilbúinn að setjast aftur yfir þetta mál og reyna að ná sátt. Ég tel að það sé fullur vilji til þess hjá fulltrúum flestallra flokka í þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann kom töluvert inn á gögnin í ræðu sinni og að þingið og ráðherrarnir teldu sig geta endurmetið kosti og fært þá til á milli flokka: Telur hv. þingmaður að það hafi bara gilt í aðra áttina? Við erum hérna með tilflutning frá tillögu hópsins sem fenginn var til að flokka, sem Svanfríður Jónasdóttir leiddi ásamt fulltrúum ráðuneytanna og fleirum, og tillaga ráðherranna gengur í þá átt að Skrokkalda og Hágönguvirkjanir færist úr nýtingarflokki í biðflokk á grundvelli einhverra raka sem mér er algjörlega fyrirmunað að skilja. Er hv. þingmaður sammála þeim rökstuðningi sem birtist okkur í þessu plaggi varðandi tilfærsluna á þeim þremur virkjunarkostum (Forseti hringir.) og telur hann utanumhaldið og vinnsluna í kringum það allt saman fullnægjandi?