141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér líst ekki á þennan tón sem er í nefndarálitinu vegna þess að ég held að ætlunin í rauninni hjá vinstri stjórninni sem nú er við völd sé að halda áfram á sömu braut. Að reyna að sjá til þess að hér verði ekki nýtt meiri orka en bara til að fá ljós á perurnar, ekki til að skapa verðmæti í samfélaginu.

Það er óásættanlegt, svo ekki sé meira sagt. Mig langar að nefna eitt dæmi sem búið er að vinna lengi að. Maður tekur nú gjarnan dæmi nær sér en fyrir norðan hafa aðilar velt því fyrir sér að setja upp koltrefjaverksmiðju og er mikið búið að rannsaka það mál og vinna í því. Sú verksmiðja mundi þurfa einhvers staðar á milli 10–13 megavött, ef ég man rétt, og skapa kannski 50–100 störf. Það þyrfti að flytja inn hráefni að einhverju leyti en (Forseti hringir.) orkan er það sem menn mundu sækjast eftir. Þar skipti miklu máli að hægt væri að framleiða orkuna sem næst notkunarstaðnum (Forseti hringir.) af því það yki hagkvæmnina.