141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, var hér í allt gærkvöld og alla nótt. Hún hlýddi á ræður okkar og tók þátt í umræðunni og það gerði einnig annar fulltrúi stjórnarmeirihlutans.

Það er þó eðlilegt að framsögumaður málsins og sá sem ég held að hafi lýst sig ábyrgan fyrir málinu sé hér við þessa umræðu. Þess vegna finnst mér óeðlilegt að forseti haldi umræðunni áfram án þess að viðkomandi sé hér.

Í öðru lagi er afar mikilvægt að ráðherrar málaflokkanna, en málið fjallar bæði um vernd og nýtingu, séu hér og hlýði á umræðuna og taki þátt í henni. Þeir áttu ekki heimangengt í nótt en virtust hafa fylgst með í sjónvarpi samkvæmt upplýsingum forseta. En það dugar okkur hins vegar ekki því að við getum ekki beint spurningum til virðulega ráðherra í gegnum símann eða neitt slíkt ef þeir eru heima hjá sér. Þess vegna gerum við þá kröfu að ráðherrarnir verði hér í dag (Forseti hringir.) og verði viðstaddir alla þá umræðu sem á eftir að fara fram í málinu.