141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um bótakerfið. Það er búið að gera mjög mikið í skattkerfinu. Það er búið að flækja það lifandis býsn. Það er búið að auka skatta á heimili og fyrirtæki í landinu. Það er afrek hæstv. ríkisstjórnar. En ég bíð alltaf eftir leiðréttingum og einföldun á bótakerfinu

Ég starfaði í nefnd sem átti að vinna að því að finna lausn á þeim skaða sem framfærsluuppbótin, sem hæstv. forsætisráðherra, þá félagsmálaráðherra, tók upp haustið 2008, hefur valdið lífeyrissjóðunum þar sem lágtekjufólk tapaði réttindum sínum. Það fær enginn neitt úr tryggingakerfinu sem er með 73 þús. kr. eða minna í lífeyri. Þessi nefnd skilaði niðurstöðu fyrir nokkuð löngu síðan sem snýst um að einfalda samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða og annarra tekna bótaþegans mjög mikið. Auk þess er að störfum nefnd sem á að taka upp húsnæðisbætur í staðinn fyrir vaxtabætur og húsaleigubætur. Ég bíð spenntur eftir niðurstöðum úr báðum þessum nefndum sem andstætt við skattkerfið einfalda vonandi bótakerfið, reyndar með töluvert miklum kostnaði því að menn horfðu ekki í það en hann kemur til kastar næsta fjármálaráðherra að mér skilst.

Ég bíð spenntur eftir því að þessi frumvörp komi fram frá hæstv. velferðarráðherra. Mér sýnist miðað við þá daga sem eftir eru til áramóta að það verði varla úr því, fyrir utan að hv. Alþingi er að glíma við mjög stór mál sem munu taka mikinn tíma eins og kvótamálið sem átti að klára á þremur vikum og náttúrlega stjórnarskrána sem er verið að sýna endalausa lítilsvirðingu með því að meðhöndla hana eins og ég veit ekki hvað. Ég ætla að vona að stjórnarskrármálið fái farsælan endi með því að menn taki það frekar í bitum.

Ég bíð eftir einföldun á bótakerfinu, frú forseti.