141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eins og mælt úr mínum munni. Það sem ég hefði viljað sjá eftir að verkefnisstjórnin skilaði inn röðun sinni á virkjunarkostum eða nýtingarkostum — vegna þess að ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að auðvitað er nýting falin í vernd. Ég hefði viljað sjá að þegar þessum listum var skilað inn hefði tekið við vönduð vinna sérfræðinga að flokka kostina í þessa þrjá flokka, ekki þessa skoðanakönnun sem var framkvæmd í raun og veru — sú niðurstaða að við hefðum tekið hana hér í gegnum Alþingi án þess að hreyfa við nokkrum hlut. Þingsályktunartillaga okkar sjálfstæðismanna sem er nú föst inni í nefnd vegna þess að hún fékkst ekki rædd á sama tíma og þessi þingsályktunartillaga gengur einmitt út á að beygja sig undir mat sérfræðinga sem hafa tekið tillit til allra þeirra þátta sem undir eru. Tekið tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila, hvort sem þeir eru í verndar- eða nýtingarflokki. Í framhaldi af því hefðum við samþykkt áætlun sem stæði til langs tíma í sátt allra, en ekki að stefna þessu inn í einhverja sex mánaða rammaáætlun eins og nú lítur út fyrir, því það að pólitíkusarnir hafi farið að togast á um það tekur alla (Forseti hringir.) sátt um málið.