141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er auðvitað mikilvægt að við tökum umræðu um þessi mál. Hún hefur þróast í þá veru að menn tala frekar um hvað skynsamlegt sé að gera gagnvart náttúrunni en í hina áttina. Ég minni hins vegar á að sveitarfélög á Snæfellsnesi unnu að umhverfismálum undir forustu sjálfstæðismanna. En hvað um það, við skulum ekki deila um það.

Þegar ég les álitin, bæði álit meiri hlutans og þær röksemdafærslur að færa vatnsaflsvirkjunarkosti yfir í biðflokk en skilja eftir háhitavirkjanirnar á Reykjanesinu og þau rök sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans og hvergi annars staðar, verð ég að segja að mér finnast rökin meiri hlutans fyrir því að vernda háhitasvæðið vera mun sterkari en rökin varðandi vatnsaflsvirkjunarkostina. Ég staldra við ósamræmið því að rökin gegn háhitavirkjunum eru mikið sterkari og ég held að það sé miklu meiri samhljómur á Alþingi gagnvart því að fara varlega í háhitavirkjanir á Reykjanesskaganum en fyrir vatnsaflsvirkjunum í neðri hluta Þjórsár. Hv. þingmaður fór vel yfir það sem snýr að jökulánum. Þær eru settar í biðflokk í tillögum meiri hlutans þó svo að þær hafi verið flokkaðar mjög ofarlega í nýtingarflokki af verkefnisstjórn. Þess vegna spyr ég hv. þingmann enn og aftur um mikilvægi þess að snúa ekki frá hinni faglegu vinnu. Ég er ekki sammála því sem hv. þingmaður segir og ég hræðist það að þegar nýtt þing hefst segi menn: Þetta er bara marklaust þvaður. Við berum (Forseti hringir.) enga ábyrgð á því og förum í allt aðra átt en hér er lagt til.