141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg hjartanlega undir áhyggjur hv. þingmanns varðandi umræðu um háhitavirkjanirnar og á Reykjanesi. Að það skuli yfirleitt vera til umræðu að fara inn á miðhálendi Íslands til að virkja þar háhita. Ég styð þær breytingartillögur sem hv. þingmenn Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa lagt fram hvað það varðar.

Við erum góð í að gagnrýna kynslóðir sem gengnar eru fyrir það að þær eyddu skógum á Íslandi. En þær hjuggu skóginn sér til lífsviðurværis. Þær hjuggu hann af því að þær höfðu ekki annan eldivið, neyðin var svo mikil. En við búum ekki við þá neyð nú að við þurfum að ganga á náttúruauðlindir okkar, náttúruperlur og náttúruvætti vegna þess að við séum að krókna úr kulda eða svelta í hel eins og var fyrr á öldum. Þess vegna ber okkur skylda til að fara varlega og láta náttúruna njóta vafans í þeim efnum. Ég ætla ekki að segja meira um einn stjórnmálaflokk umfram annan, að þar sé ekki unnið út frá sjónarmiðum um það hvernig eigi að vernda og standa vörð um náttúruna til framtíðar. Ég held að það sé eitt það ánægjulegasta fyrir okkur og nú tölum við um náttúruverndarfólk. Ég held að við, allflestir Íslendingar, séum það en við höfum kannski okkar smiðsefni í skemmtilegar raðir, það er hvað umræðan hefur þó farið inn á allt aðrar brautir núna en fyrr á árum þegar við (Forseti hringir.) tókumst hvað harðast á um Kárahnjúkavirkjun. En ég tel að þessi rammaáætlun sé ... (Forseti hringir.) Ég flyt tillögu um að jökulárnar (Forseti hringir.) í Skagafirði fari í verndarflokk.