141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við skipunarbréf verkefnisstjórnar var lagt fyrir hana að skila til umhverfisráðherra og Alþingis fyrir lok árs 2009 tillögu að rammaáætlun um vernd og nýtingu. Það er það sem var lagt upp með. Verkefnið var umfangsmikið en auðvitað var heldur ekki alveg búið að leggja línurnar um það hvernig þetta ætti allt saman að klárast, hvernig nákvæmlega umgjörðin að því átti að vera. Við sjáum að löggjöfin er ekki samþykkt fyrr en 2011 en vissulega hefði að mínu mati verið hægt að gera þetta fyrr og hraðar.

Við vitum að frumvarpið um þessi mál lá inni í ríkisstjórnarflokkunum í marga mánuði þannig að það liggur alveg fyrir. En af því að hv. þingmaður minntist á skoðanakönnunina sem gerð var hjá verkefnisstjórn langar mig að ítreka það sem ég hef sagt hér áður að það er varhugavert að líta um of til þeirra niðurstaðna. Verkefnisstjórn eyddi mörgum mánuðum og árum í að hanna þá aðferðafræði sem liggur að baki þessari skýrslu hér. Verkefnisstjórnin ætlaði sér og var falið það að raða þessum kostum á faglegan hátt. Skoðanakönnunin er bara skoðanakönnun og þá voru einfaldlega 12 einstaklingar að tjá skoðanir sínar, ekki út frá aðferðafræðinni heldur í ljósi þeirra upplýsinga sem þeir höfðu og könnuðust við og þekktu. Þarna leyfði maður sér, og allir sem voru í verkefnisstjórninni ímynda ég mér, að nota eigin tilfinningar. Þær komu hins vegar ekki inn í aðferðafræðina, voru ekki smíðaðar þar inn í þannig að auðvitað verður að horfa á þessa skoðanakönnun sem slíka.

Eins tel ég, ef mig brestur ekki minni, að löggjöfin hafi ekki legið fyrir þegar skoðanakönnunin var gerð þannig að ekki var ljóst að biðflokkurinn yrði skilgreindur jafnþröngt (Forseti hringir.) og gert var við vinnslu þingsályktunartillögunnar.