141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þann skilning sem hv. þingmaður lagði í þennan sameiginlega fund og það var að sönnu sláandi að bæði Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins fóru einmitt yfir efnahagsleg áhrif, hvað það þýddi að við næðum ekki þessari 20% fjárfestingu inn í landið. Það skorti á að giska 100 milljarða með tilheyrandi áhrifum á að ekki verði fjölgun á atvinnumarkaði og við séum að seinka því að hér verði efnahagsbati með tilheyrandi bættum lífskjörum.

Það sem mér fannst sláandi og vildi þá heyra álit þingmannsins á er að við sem höfum haldið fram þessum rökum í þingsal höfum verið sökuð um að fórna allri náttúrunni á altari efnahagslegra gæða. Ég hef ekki skilið þessa umræðu til hlítar vegna þess að í markmiðum rammaáætlunar á einmitt að taka tillit til allra þessara átta. Það er fullkomlega eðlilegt að taka tillit til þeirra.

Ég býst við að þessi umræða taki að lokum enda eins og allar aðrar og spyr hv. þingmann hvort hann telji að umræðan hafi að einhverju leyti skilað þeim árangri að það sé líklegra að við náum að setjast niður og ná breiðari sátt í málið, þá væntanlega, a.m.k. hvað mig varðar, að hluti af þeim virkjunum sem ráðherrarnir færðu úr orkunýtingarflokki í biðflokk komi aftur inn í orkunýtingarflokk og meira jafnræði verði á milli vatnsaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana. Telur hv. þingmaður líklegt að það geti gerst (Forseti hringir.) áður en við göngum til atkvæða um rammaáætlun?