141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í og koma að nefndarfundi sem var sameiginlegur um þetta mál síðastliðinn laugardagsmorgun, einmitt vegna beiðni þess sem hér stendur og hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar mætti Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, ásamt fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins til að fjalla um rammaáætlun. Ástæða þess að beðið var um þennan fund var yfirlýsing Alþýðusambands Íslands sem sneri að ríkisstjórninni og birtist í fjölmiðlum í síðustu viku þar sem Alþýðusambandið fjallaði um hin ýmsu mál sem ríkisstjórnin hefði svikið við gerð kjarasamninga.

Eitt af þessum atriðum var einmitt rammaáætlun, að ríkisstjórnin hefði svikið varðandi rammaáætlun og ef sú niðurstaða sem hér er samþykkt yrði óbreytt væri um svik að áliti ASÍ að ræða. Forseti ASÍ sagði meðal annars á fundinum að í ljósi sérstakra yfirlýsinga frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, um að þetta væri allt saman lygi sem ASÍ héldi þarna fram, stæði Alþýðusamband Íslands við allt það sem kæmi fram í umræddri yfirlýsingu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að menn hafa verið að túlka þetta í allar áttir: Hver var upplifun hv. þingmanns af þessum nefndarfundi hvað varðar þetta atriði, það er rammaáætlunin og yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands annars vegar, yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands hins vegar og hvernig Alþýðusambandið fjallaði um þessi mál? Hver var upplifun hv. þingmanns á þessu, getur hv. þingmaður farið aðeins betur ofan í það og hvort hann telji að þetta muni með einhverjum hætti hafa áhrif á þetta mál og þá kjarasamninga og þær samningaviðræður sem fara í gang á nýju ári? Ég vil bara fá hv. þingmann til að fara aðeins betur ofan í upplifun sína af þessum umrædda nefndarfundi.