141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að koma aftur í síðara andsvar en þar sem hv. þingmaður vill svara þessu með Reykjanesskagann er sjálfsagt að hún geri það. Og ég endurtek og ítreka að á fundum nefndanna, t.d. varðandi Hagavatnsvirkjun, komu upp alvarlegar athugasemdir og ábendingar um að þær fullyrðingar stæðust ekki að þetta væri svona stórkostlegt landgræðsluverkefni. Aftur hafa komið fram alvarlegar spurningar um þetta og þá fylgir því mun meiri ábyrgð að dæma þessa kosti í nýtingu en að setja í bið um tiltekinn tíma. Þar er að sjálfsögðu rétt að það sé gert í áframhaldandi vinnu við rammaáætlun þar sem aftur er farið yfir allar þær ábendingar sem hafa borist. Það gildir í ferlinu í sjálfu sér þegar kostir eru áfram í bið og allar þessar umsagnir hafa borist aftur og aftur og þetta er það vandaða ferli sem á að vera. Þess vegna, eins og ég segi og hef sagt hér áður, hefðu fleiri kostir átt að vera í biðflokki. En ég ætla ekki að lengja mál mitt.