141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Enn þá ræðum við rammaáætlun, það mikilvæga mál sem stendur nú fyrir dyrum. Ég fagna því sérstaklega að framsögumaður málsins er mættur til þings á ný, hv. þm. Mörður Árnason. Hans var sárt saknað í umræðunni á fyrri stigum málsins. Það er ágætt að hann sé mættur í þingsal, hann getur þá svarað spurningum frá þingmönnum því að lítið fer hér fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Það verður að setja öll þessi mál í samhengi því að nú berast af því fréttir að Evrópuþingið sé að álykta og lekið hafa út drög að ályktun Evrópuþingsins um Ísland og makríldeilunnar sem sambandið telur sig eiga í gagnvart okkur sem þjóð. Þess má geta að ég spurði hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon í dag varðandi Evrópusambandsumsóknina í ljósi stöðunnar í Evrópu og vantrúar flestra á að sambandið vilji stækka nú um sinn vegna þess að vandamál þess eru svo mikil. Ég spurði hæstv. ráðherra um stöðu umsóknarinnar. Hann taldi að það mundi koma í ljós eftir næstu ríkjaráðstefnu, að hægt væri að taka ákvörðun um umsóknina á nýju ári. Hæstv. ráðherra kallaði eftir því að það værum ekki við sem kölluðum eftir áheyrn í Brussel heldur strandaði málið á Evrópusambandinu sjálfu, einkum stóru kaflarnir, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn.

Nú hefur ályktun Evrópuþingsins um Ísland lekið út. Þar kemur fram að makríldeilan þvælist ekki svo fyrir Evrópusambandinu heldur segir þar að við ættum að flytja orku til Evrópu með sæstreng. Ég hef farið yfir það áður í ræðum í þessum ræðustól að Evrópusambandið er í fyrsta lagi auðlindasnautt, í öðru lagi eru flest raforkuver í sambandinu að verða úrelt. Ástandið verður orðið mjög slæmt á árabilinu 2020–2030 og Evrópusambandið er tæpast í stakk búið til að byggja þar upp ver á nýjan leik vegna bágrar stöðu þjóðanna. Svo rekur Evrópusambandið mikla umhverfisstefnu, græna stefnu, eins og við vitum, og fer það að sjálfsögðu beint gegn orku sem mörg ríki framleiða í kjarnorkuverum.

Það er einkennilegt að ríkisstjórnin skuli leggja slíka áherslu á þessa rammaáætlun því að hún ber ábyrgð á Evrópusambandsumsókninni. Í stuttu máli má segja sem svo að ríkisstjórnin sé að leggja hér á virkjunarbann, að ekki megi hreyfa við svo neinu nemi þeim virkjunarkostum sem í boði eru sem eru ódýrir og nánast tilbúnir. Ég hef furðað mig á því hvers vegna forstjóri Landsvirkjunar, sem er 100% í eigu ríkisins, skuli leggja slíkt ofurkapp, fjármagn, orku og starfsfólk í það að rannsaka svo mjög og stúdera rafmagnskapal til Evrópu. En þarna er það upplýst, hugmyndir um kapalinn og Landsvirkjun eru líklega komnar langtum lengra en okkur er sagt frá. Þá spyr maður sig: Er það millileikur hjá ríkisstjórninni að leggja til virkjunarbann eða eru Vinstri grænir að reyna að ná sínu fram í rammaáætlun eins og Samfylkingin náði fram Evrópusambandsumsókn sinni? En þarna skarast hagsmunir að því leyti að ef það er rétt sem fram kemur í ályktun Evrópuþingsins um Ísland, að makríllinn skipti engu máli svo framarlega sem við getum skaffað Evrópu raforku, þá er málið í hnút. Líklega vita Evrópuþingmenn þá ekki að hér á Íslandi er verið að leggja á raforkuframleiðslubann um leið og þeir ætla að semja um makrílinn á hagstæðan hátt (Forseti hringir.) fyrir sig og halda að þeir fái ódýra, græna og fallega orku frá Íslandi til að knýja iðnað sinn. (Forseti hringir.) Það er kaldhæðnislegt.