141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að hvetja til þess í umræðunni um þetta mikilvæga mál að þingmenn setjist niður og reyni að hefja um það svolítið málefnalega umræðu. Það hefur verið vitað mál í langan tíma að rammaáætlun, sem tekur svo augljóslega miklu meira tillit til verndunarsjónarmiða en að reyna að feta hina skynsamlegu og fínu leið milli nýtingar og verndunar sem upphaflega var lagt af stað með í gerð rammaáætlunar, getur aldrei skapað víðtæka sátt.

Það hefur verið magnað og í raun sorglegt að fylgjast með því hvernig umræðan hefur þróast og hvernig gagnrýni frá Alþýðusambandinu og aðilum vinnumarkaðarins hefur verið tekið af hálfu margra stjórnarliða, hvernig hún hefur skapað enn eitt stríðið á milli ríkisstjórnarinnar og ekki bara stjórnarandstöðunnar heldur einnig á milli ríkisstjórnarinnar og svo Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Þau átök sem ríkisstjórnin stendur í eru ekki bara bundin við þetta mál. Benda má á átökin við Samtök ferðaþjónustunnar, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátasjómanna, aldraða og öryrkja, lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki, svo eitthvað sé talið. Það er eins og ríkisstjórninni sé alveg ómögulegt að vinna mál í einhverri sátt og það endurspeglast í þessu mikilvæga máli, mönnum er brigslað fram og til baka um svik og ósannindi.

Hæstv. forseti og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fór í ágætlega málefnalega ræðu fyrr í dag um þetta mál. Þar fór hann vel í gegnum þann ágreining sem uppi er í málinu og endaði svo á því að brigsla undirrituðum um að vilja ekkert nema stóriðju og hvalveiðar til að byggja upp atvinnulíf í landinu. Það er alveg rétt, ég er fylgjandi því að við nýtum orkuauðlindirnar með skynsamlegum hætti til að bæta samfélag okkar. Það er alveg rétt að ég er mjög fylgjandi hvalveiðum og tel þær alveg nauðsynlegar í mörgu tilliti fyrir þjóð sem nýtir auðlindir hafsins með þeim hætti sem við gerum. En uppruni minn er sá að ég er gamall bóndi og verslunarmaður í mörg ár, átti heildsölufyrirtæki og verslanir, hafði fjölda manns í vinnu þannig að það er ekki eins og ég hafi starfað á þeim vettvangi sjálfur. Ég hef aldrei komið nálægt því að starfa í svokallaðri stóriðju eða við hvalveiðar sjálfur, aldrei. Ég hef verið á sjó, ég hef verið við búskap og ég hef rekið innflutningsfyrirtæki og smásöluverslanir. Það er bakgrunnur minn þannig að ég horfi nú víðar og hef alltaf talað fyrir fjölbreyttu atvinnulífi, en ég tel aftur að við þurfum að hlúa að þessum grunnatvinnugreinum okkar sem við munum byggja á.

Ef við horfum aftur til til fjárfestingaráætlunar Landsvirkjunar, sem ég hef nokkrum sinnum vitnað í hér, ekki bara við þetta mál heldur einnig önnur, er ágætt að skoða hana núna þegar við köllum svo mikið eftir aukinni fjárfestingu í samfélagi okkar. Í raun er það grunnurinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins 5. maí 2011 að hér yrði aukin fjárfesting.

Í framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er bara talað um virkjunarkosti sem augljóslega ættu að vera í nýtingarflokki. Samkvæmt þeirri áætlun er talið að fjárfesting í orkuverum og þeim iðnaði sem mundi byggjast upp samhliða yrði 1.000–1.100 millj. kr. til ársins 2020. Það mundi auka hagvöxt um að jafnaði 1,4% á ári á þeim tíma og um 2,5% á næstu árum. Það mundi þýða að ef rammaáætlun hefði verið afgreidd í fyrra, (Forseti hringir.) eins og reiknað var með, og farið af stað þá mundu skapast hér vel á þriðja þúsund störf strax á næsta ári, síðan enn (Forseti hringir.) fleiri á árunum á eftir.