141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hún spyr hvort mannfólkið eða fiskarnir eigi að njóta vafans ef út í það er farið. Mín skoðun er að hægt hefði verið að fara í tvær virkjanir af þremur í Þjórsá og geyma Urriðafossvirkjun þar til frekari upplýsinga væri aflað þrátt fyrir að Veiðimálastofnun hefði margoft lýst yfir og sagt frá rannsóknum sínum og talað um ýmislegt sem ég kann ekki að nefna til að koma í veg fyrir hrun laxins á því svæði. Ég held að komið hafi verið til móts við þá sem óttuðust laxagengd með Urriðafossvirkjun, að hinn villti lax okkar mundi bera skarðan hlut frá borði, ef við orðum það svo.

Ég held að það hafi verið rangt mat að taka Holtavirkjun og Hvammsvirkjun út og tel að í þær eigi að fara. Í mínu hjarta er fullvissa um að þær muni ekki skemma náttúru okkar ef út í það er farið. Við eigum að nýta auðlindir landsins og gæði. Það er mín skoðun að þarna hafi verið tekið of stórt skref. Ég get skilið að menn vilji skoða Urriðafossvirkjun enn frekar og þá er það svo, en að setja hinar tvær í bið og kalla eftir enn meiri rannsóknum held ég að séu hin pólitísku fingraför sem við höfum margoft rætt í umræðunni um rammaáætlun. Það að færa þessar tvær virkjanir aftur í orkunýtingarflokk (Forseti hringir.) mundi örugglega og án efa liðka til fyrir því að hér næðist niðurstaða.