141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar og get tekið undir sjónarmiðin sem komu bæði fram í ræðunni og þessu andsvari varðandi Urriðafossvirkjun, að sjálfsagt mál sé að hlífa henni að sinni á meðan frekari rannsóknir fara fram. Mig langar af því tilefni að segja frá því að ég er fædd og upp alin í næsta nágrenni við sjálfan Urriðafoss en ég sá hann ekki fyrr en fyrir þremur, fjórum árum þegar mannshöndin var búin að koma að og byggja nýja Þjórsárbrú því að fossinn var hulinn mannsauganu fram að því. Framkvæmdir leiða því ýmislegt gott af sér. Eins má segja um þær virkjanir sem hefur verið farið í á hálendinu og svo Írafoss og Ljósafoss, þetta eru orðnir hinir fegurstu staðir í dag. Virkjanir og umhverfi fara saman hér á landi eins og annars staðar.

Það er hreint með ólíkindum að svona mikil áhersla skuli vera lögð á það að vernda hagkvæmasta virkjunarkostinn. Þetta er raunverulega orðið að þráhyggju hjá sumum þingmönnum hér. Ég minni á að það er stutt til kosninga.

Mig langar að spyrja þingmanninn því að hún hefur kynnt sér málið vel: Stæði það til boða til að ná sátt í þessu máli að taka tvo virkjunarkosti út til að koma málinu áfram svo að hægt væri að halda áfram að vinna orku? Hvort mundi þingmaðurinn velja að taka Holtavirkjun og Hvammsvirkjun og setja þær í orkunýtingarflokk eða efri hluta Þjórsár?