141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég get staðfest það sem komið hefur fram í þessari umræðu að á fundi utanríkismálanefndar var lögð fram tillaga til þingsályktunar sem fimm hv. nefndarmenn í utanríkismálanefnd lögðu til að yrði flutt af hálfu nefndarinnar í heild. Nú er það þannig að þingnefndir geta flutt þingmál samkvæmt þingsköpum, þó því aðeins að allir nefndarmenn í viðkomandi nefnd séu því sammála. Ég sé ekki fyrir mér að það verði og eigi við í því tilfelli sem hér um ræðir. Hins vegar hafa einstakir þingmenn að sjálfsögðu fullan rétt á að flytja þingmál sem slíkir og samkvæmt þingsköpum hefur meiri hluti þingnefndar einnig heimild til að flytja mál sem slík.

Það sem er óvenjulegt í þessu er að sjálfsögðu að einn hv. þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jón Bjarnason, gengur í lið með meiri hluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (Gripið fram í.) og flytur tillögu þar að lútandi án þess að hafa kynnt það eða rætt í þingflokki sínum eins og reglur kveða á um. (Gripið fram í.)

Um þetta vil ég segja það eitt að málefni aðildarviðræðna við Evrópusambandið er sífellt umræðuefni í íslenskum stjórnmálum og að sjálfsögðu líka í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eins og öðrum stjórnmálaflokkum. Það er eðlilegt að umræða um þau fari fram. Öll skref sem tekin hafa verið í þessu máli af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa verið tekin á grundvelli samþykkta í stofnunum flokksins sem hafa til þess umboð félaganna. Öll skref hafa verið tekin á félagslegum grunni. Ég vænti þess að svo verði á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þær ákvarðanir og sú stefna sem þar er mörkuð sé áfram tekin á félagslegum grunni. Ég reikna með að það verði framhald þessa máls af okkar hálfu.