141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð um afstöðu sjálfstæðismanna til þessa máls. Mig langar fyrst til þess að segja að þegar sjálfstæðismenn vildu ræða áfram við 2. umr. fjárlagafrumvarpið í endalausu málþófi fyrr í þessum mánuði var það að sögn formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Illuga Gunnarssonar, til þess að ná fram breytingum á fjárlögunum, eins og hann orðaði það, og að þeir mundu tala þangað til það næðist. Þess vegna er eðlilegt að við slíkar aðstæður sé kallað eftir tillögum, kallað eftir því hverju menn vildu breyta í fjárlagafrumvarpinu þegar það var tekið í fordæmalausa gíslingu málþófs eins og það var.

Og nú liggur það fyrir og það er brennivínið, rétt einn ganginn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur það fram að færa í þessari umræðu að lækka gjöld á brennivíni, tóbaki og bensíni, olíugjaldi, kílómetragjaldi og bifreiðagjaldi. Það er allt og sumt og það dugir ekki, hv. þingmaður, að vísa til 157 fleiri eða færri tillagna í fortíðinni. Þetta er það sem þið standið frammi fyrir, þetta er það sem þið viljið breyta.