141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann aðeins út í vinnubrögðin sem meiri hlutinn státar sig mikið af eins og kom fram í andsvörum rétt áðan. Hefur hv. þingmaður séð einhver gögn um svokallaða náttúruminjasýningu sem á að fara í framkvæmdir á upp á 500 milljónir? Mér hafa ekki verið sýnd þau þó að ég eigi sæti í nefndinni. Getur hv. þingmaður upplýst okkur um hvort hann hafi fengið aðgang að þeim gögnum eða þeim verið komið til hans?

Aðeins út af Landspítalanum. Það er ágætt að rifja hér upp að málið er tekið út úr fjárlaganefnd á þriðjudegi, síðan er boðaður fjárlaganefndarfundur á miðvikudegi og þá er málið tekið aftur inn í nefndina þó að það sé búið að afgreiða það til 3. umr. Hvers vegna var það? Jú, það var til þess að taka út nýtt meirihlutaálit hjá hv. fjárlaganefnd og þar var Landspítalinn kominn inn. Svo halda menn því fram að það að málið sé í meðförum nefndarinnar í 100 daga sé einhver ávísun á að vinnubrögðin séu eitthvað betri. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur hann séð einhver gögn um þessa breytingu? Á fundi hv. fjárlaganefndar var kallað eftir því sem hafði verið samþykkt samkvæmt sameiginlegu minnisblaði velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra 30. nóvember, þ.e. ekki nema 12 dögum áður var samþykkt í ríkisstjórn að fara þessa leið hér, að tvískipta áætluninni, fara annars vegar í ríkisframkvæmd og hins vegar leiguleið.

Hefur hv. þingmaður fengið þessi gögn? Ég óskaði sérstaklega eftir því á þessum fundi að við fengjum þau send. Ég hef ekki fengið þau send. Þess vegna er eðlilegt að vilja fá að vita hvort hv. þingmaður hafi fengið þau send. Það getur verið að hv. þingmenn meiri hlutans líti svo á að vinnubrögðin hafi batnað vegna þess að þeir hafi aðgang að gögnum, en minni hluti fjárlaganefndar hefur ekki haft neinn aðgang að gögnum samanber þessi tvö atriði sem ég er að spyrja um.