141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:57]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend við það að uppsetning þessa frumvarps er afar dapurleg. Það tók mig langan tíma, fleiri daga, í fyrra að fara ofan í frumvarpið og fletta frá töflunum aftur í textann, skilja ekki textann, finna ekki út úr því hvar var skorið samkvæmt aðhaldskröfum, hvar var ekki skorið, hvar var bætt við. Ég var orðinn ruglaður í lokin á þessu enda gerði ég mistök í tillögugerðinni vegna þess að ég gat ekki leitað réttrar skýringar. Ég lagði meira að segja til út af þessu að skorið yrði niður í umhverfismálum í einhverjum lið. Ég áttaði mig ekki á því að liðurinn snerist um umhverfismál.

Þetta er óþolandi. Það voru gefin fyrirheit um að breyta þessu. Ekki bara í þeim texta sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson las upp heldur í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar. Það er eins og ég segi villandi framsetning, skýringarnar eru mismunandi og villandi. Þetta þarf ekki að vera svo erfitt. Fyrir þann sem einhverja þekkingu hefur á bókhaldi og annað og hefur séð ársreikninga þá er ársreikningi ævinlega stillt upp með tölum ársins sem verið er að fjalla um og jafnvel fyrir næsta ár á sömu verðlagsforsendum. Á bestu reikningum sér maður eitt ár til baka líka. Þá getur maður séð út hvernig reksturinn er að ganga. Það er ekki raunin í þessu fjárlagafrumvarpi. Það fær falleinkunn.

Ég vil benda á að fyrir þessar tillögur þurfti ég að eyða einum þremur dögum í að lesa fram og til baka. Svo þurfti ég að eyða fleiri dögum þegar tillögur fyrir 2. umr. kom fram, sem voru ótrúlega margar. Það sýnir hvað frumvarpið er ómarkvisst. Það koma ótrúlega margar tillögur fyrir 3. og ótrúlega margar alveg á síðustu stundu. Þannig að vinnan við að komast ofan í þetta fyrir þann sem ekki er í fjárlaganefnd er allt að því óðs manns æði.