141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst að Íbúðalánasjóði: Ég kom inn á það í ræðu minni að menn telja rétt og eðlilegt að meta hvaða áhrif aðgerðirnar sem gripið verður til, meðal annars að búa til sérstakt félag utan um fullnustueignir, búa til leigufélög og annað, það þarf að ráðast í fjölmargar aðgerðir sem við höfum kynnt og stjórn sjóðsins hefur kynnt að ráðist verði í. Þegar við sjáum fyrir endann á þeim aðgerðum sjáum við hverju það hefur skilað. Vonandi hefur það skilað okkur þeirri niðurstöðu að minnsta kosti að við séum komin út úr þeirri stöðu að frekar aukist á hallann og afskriftaþörfina en hitt. Þegar það liggur fyrir þá verður ljóst hversu mikil afskriftaþörfin verður, ekki fyrr.

Varðandi virðisaukaskattinn er málið einfaldlega þannig, og líka varðandi efnahags- og viðskiptanefnd, að nefndinni til varnar kemur tekjuöflunarfrumvarpið seint inn. Ég ætla ekkert að afsaka það, ég ætla frekar að biðjast afsökunar á því. Það er einfaldlega svo, það kom seint til nefndarinnar þannig að við gáfum henni ekki mikið svigrúm til að svara spurningum fjárlaganefndar. Ég tek það alfarið á mig. Það voru þung og flókin atriði þarna að baki og við þurftum að fara vandlega í gegnum umræðu um ýmsa þætti eins og til dæmis fjársýsluskattinn, virðisaukaskattinn á ferðaþjónustu og annað sem þar var inni.

Ástæðan fyrir því að ég legg fram breytingartillögu við 3. umr. fjárlaga er sú að ég vil gefa eins raunsanna mynd af fjárlögunum og hægt er í stöðunni. Ég fæ þær fregnir innan úr efnahags- og viðskiptanefnd að ekki sé líklegt að menn séu til í að samþykkja svo skamman aðdraganda að hækkun á virðisaukaskatti sem 1. maí er, en menn séu hins vegar frekar tilbúnir að fallast á tillögur sem fela í sér að það verði fært aftur til 1. september. Þá þykir mér eðlilegt að ég leggi fram við umræðuna lækkun á tekjuhliðinni þannig að fjárlögin stangist ekki á við tekjuöflunarfrumvarpið.