141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

sjúkratryggingar o.fl.

494. mál
[11:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Okkur er í rauninni nauðugur einn kostur að greiða atkvæði með þessu máli. Það kom fram fyrr í haust þar sem tekin var um það ákvörðun á handahlaupum að fresta gildistökuákvæði gildandi laga frá 1. október til 1. janúar.

Þegar þessi mál voru síðan yfirfarin núna í haust af þeim sem við eiga að búa kom í ljós að það var tæknilegur ómöguleiki að láta þessi lög taka gildi 1. janúar. Það hefði haft í för með sér fullkomið uppnám á lyfjamarkaðnum og gagnvart þeim sem þurfa að búa við endurgreiðslukerfi. Þess vegna er nauðsynlegt að láta þessa frestun fara fram. Hún er gerð í góðri sátt við þá sem við eiga að búa og við í velferðarnefnd erum sannfærð um að hægt eigi að vera að koma þessari kerfisbreytingu á laggirnar sem út af fyrir sig er enginn pólitískur ágreiningur um, að koma þeirri kerfisbreytingu á fyrir tiltækan tíma, þ.e. 4. maí næstkomandi.