141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er jákvætt mál, ef við meinum eitthvað með byggðastefnu, að koma til móts við þau svæði sem eru hvað lengst frá aðalhöfnum og höfuðborgarsvæðinu. Við ættum auðvitað að setja meiri fjármuni í þetta verkefni. Ég hafði orð á því í fyrra að mér þætti þetta sérkennilegt verkefni og þá virtist vera að því væri stýrt af ákveðnum hagsmunum innan ríkisstjórnarinnar, hvar svæðin væru. Nú er búið að laga það til með því að setja norðausturhornið inn. Enn skortir hins vegar verulega á að menn horfi á þær byggðir sem menn hafa verið að skilgreina sem veikar byggðir á landinu og liggja mjög langt frá eins og t.d. svæðið í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu. Það er gríðarlega langt frá öllum aðalinnflutningshöfnum og ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að sú skilgreining sem miðast við 390 kílómetra hefði líka verið skilgreind út frá byggðastyrkleika svæðanna og fjarlægðum, þetta væri tengt. Ég tek undir að þetta er jákvætt (Forseti hringir.) mál en við þurfum að halda áfram á þessari braut ef við meinum eitthvað með því að hér sé byggðastefna.