141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Íslands stærir sig af árangri sem hún telur liggja í því að halli ríkissjóðs nemi ekki um nema tæpum 4 milljörðum kr. Engu að síður liggur fyrir að bara við fjáraukalagagerð næsta árs munu bætast einhverjir milljarðar og þegar reikningum verður lokað, vonandi sem fyrst, munu væntanlega fleiri milljarðar bætast ofan á það. Það er til marks um þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í tíð þessarar ríkisstjórnar. Á árinu 2011 átti hallinn að vera um 36,4 milljarðar en endaði í 89,4 milljörðum kr. Við vitum nú þegar að halli ríkissjóðs fyrir árið 2012 verður um 50 milljörðum verri en núverandi staða gefur til kynna.

Því miður, í ljósi þeirrar gríðarlegu óvissu sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa skapað í efnahagsmálum og meðan fjárhagur ríkisins er jafnviðkvæmur og raun ber vitni, töldum við í Framsóknarflokknum okkur (Forseti hringir.) ekki stætt á því að leggja fram tillögur en við munum sitja hjá að meginstefnu til við þessa atkvæðagreiðslu.