141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Allt þetta kjörtímabil hafa verið teknar erfiðar ákvarðanir í þessum sal, erfiðar ákvarðanir um hækkun á tekjustofnum, um niðurskurð, erfiðar ákvarðanir sem hafa snert allt samfélagið. En ástæðan hefur einfaldlega verið sú að við fengum svo stórt fjárlagagat í meðgjöf í ríkisstjórn og við ákváðum að taka allar þessar erfiðu ákvarðanir til að loka fjárlagagatinu hratt. Það er að takast með þessum fjárlögum. Það er að takast að snúa af braut skuldasöfnunar og inn á brautir skuldaniðurgreiðslu. Okkur mun takast á árinu 2014 að hefja endurgreiðslur skulda þannig að við getum farið að breyta vaxtagreiðslunum sem eru allt of þungar í velferð fyrir samfélagið allt.

Ég held að það sé mikilvægt að hér komi líka fram að það að loka fjárlagagatinu er alger forsenda þess að við getum byrjað að losa um höftin (Forseti hringir.) og er alger forsenda þess að hér geti orðið frekari vöxtur í samfélaginu. Ég er stolt af því að vera í ríkisstjórn sem nær að skila jafngóðu verki af sér og raun ber vitni hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)