141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í nefndarstörfum og umræðum um fjárlög hefur meiri hluti þingsins upplýst að tilgangslaust sé að leggja til breytingar á forgangsröðun á útgjöldum ríkisins. Við höfum því ekki lagt fram slíkar tillögur. Sóknargjöld eru hins vegar ekki framlög ríkisins til kirkjunnar heldur félagsgjöld sem ríkið tekur að sér að innheimta samkvæmt samningum við kirkjuna.

Undanfarin ár hefur kirkjan gefið eftir verulegan hluta félagsgjalda sinna til að koma til móts við ríkið í fjárhagskröggum þess. Í fyrra þegar ljóst varð að framlög kirkjunnar til ríkisins væru orðin meiri en hún gat staðið undir bókaði fjárlaganefnd að við fjárlög ársins 2013 yrði hlutur kirkjunnar leiðréttur í samræmi við mat sérstakrar nefndar á vegum innanríkisráðuneytis. Hér er einungis lagt til að lágmarksmat þeirrar nefndar og þar með lágmarksfyrirheit fjárlaganefndar verði uppfyllt þannig að kirkjan haldi einungis eftir nógu miklu af þeim félagsgjöldum sem ríkið innheimtir fyrir hennar hönd svo að Alþingi geti framfylgt (Forseti hringir.) 62. gr. stjórnarskrárinnar og staðið við gildandi samninga og loforð gagnvart kirkjunni.