141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um hvaða upplýsingar menn hafa um afdráttarskattinn og áhrif hans á tekjur ríkissjóðs. Því er til að svara að þar liggur einfaldlega fyrir mat ríkisskattstjóra á þeim áhrifum sem taldi þau vera þessi, þ.e. að 600 millj. kr. yrðu skattfrjálsar af því sem gert var ráð fyrir en 1.600 millj. kr. mundu skila sér áfram í ríkissjóð.

Nú er auðvitað ekki hægt að útiloka það eins og þingmaðurinn þekkir að þegar mörkunum er breytt hitti menn ekki nákvæmlega á þá tölu. Ef það væri raunin að það skilaði lægri tekjum, og það getur auðvitað allt eins skilað hærri tekjum á næsta ári vegna þess að erlendir aðilar hafa auðvitað umtalsverðar vaxtatekjur hér á Íslandi og eignir þeirra í íslenskum krónum hafa farið vaxandi, er þingið auðvitað við fjárlagagerð að ári í færum til að breyta hlutfallstölunni sem lögð er á þessa vexti. Það er sannarlega þannig að þessir aðilar greiða helmingi lægri prósentur núna heldur en þeir gerðu fyrir ári síðan, og raunar helmingi lægri prósentu en landsmenn sjálfir greiða af fjármagnstekjum, þannig að það er út af fyrir sig fátt sem mundi mæla gegn því að breyta þá prósentunni til að auka tekjurnar aftur af því.