141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina á þeim breytingum sem voru gerðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á svokölluðum bandormi eða kyrkislöngu eins og ég kalla þetta nú yfirleitt. Nefndinni er auðvitað vorkunn að fá þessi mál þar sem vinnubrögðin einkennast af hringlandahætti.

Þetta eru kunnugleg vinnubrögð. Fyrst eru boðaðar miklar skattahækkanir og síðan er dregið í land og meira að segja er hæstv. fjármálaráðherra farin að grípa inn í málin sjálf prívat og persónulega eins og hún gerði með virðisaukaskattinn af ferðaþjónustunni eftir samningalotuna við þingmenn Bjartrar framtíðar, sem einhverra hluta vegna þykjast ekki vera í ríkisstjórnarflokkunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta eðlileg vinnubrögð og framkoma gagnvart ferðaþjónustunni. Fyrst eru boðaðar breytingar í fjárlagafrumvarpinu, síðan eru gerðar breytingar á skattþrepinu í meðferð frumvarpsins og síðan kemur hæstv. ráðherra með enn eina útfærsluna með breytingartillögu. Ég held að það sé nánast einsdæmi að hæstv. ráðherra flytji breytingartillögu á tekjugrein frumvarpsins eftir að 3. umr. er hafin. Finnst hv. þingmanni þetta forsvaranleg vinnubrögð? Sérstaklega í ljósi þess að í ferðaþjónustunni selja aðilar þjónustu sína fram í tímann og eru bundnir af þeim samningum og geta ekki breytt því. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að þetta hafi til að mynda á atvinnugreinina og ímynd hennar út á við, og á sölu á þjónustunni, að vera í slíkri óvissu um skattumhverfið?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann annarrar spurningar. Þó svo að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi brugðist við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið um verðlagsáhrif af beinu sköttunum á skuldir heimilanna, með lækkun um 2 milljarða, er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að heimilin í landinu þoli þrátt fyrir það 6 millj. kr. hækkun á lánunum sínum vegna verðlagsáhrifa af skattahækkunum?