141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að upplýsa forseta og koma fram kvörtun gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hér fyrr í dag var það upplýst að hæstv. umhverfisráðherra hefði hafnað undanþágubeiðni Skaftárhrepps um framlengingu á starfsleyfi sorpbrennslu. Það hefur gríðarleg áhrif á þetta litla sveitarfélag, bæði fjárhagsleg og önnur, verður til þess að sundlauginni þarf að loka og gerir þeim mjög erfitt fyrir. Við þingmenn Suðurkjördæmis óskuðum strax eftir fundi bæði með hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. umhverfisráðherra sér enga ástæðu til að hitta þingmenn kjördæmisins til að fjalla um gríðarlega hagsmuni lítils sveitarfélags fyrr en einhvern tímann á nýju ári.

Ég vil koma hingað upp, frú forseti, til að koma þessari umkvörtun okkar á framfæri við forseta. Það er jú ein meginskylda okkar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu en það er erfitt þegar framkvæmdarvaldið neitar að hitta okkur, hafnar því.