141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég sagði hér í gær að það væri til lítils fyrir okkur að fagna vegna þess að staðreyndin væri sú að við vissum eiginlega ekki um hvað við værum að greiða atkvæði. Við erum búin að funda um þetta í dag. Það sem við vitum er að við vitum mjög lítið um þetta mál. Það kom mjög seint inn í þingið og síðan hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar og við í efnahags- og viðskiptanefnd verið á harðahlaupum við að bjarga því sem bjargað yrði. [Kliður í þingsal.]

Staðreyndin er hins vegar sú, og ég man ekki eftir að hafa séð þetta áður, að við erum með stóra kafla í þessu sem menn þurfa að ýta fram í janúar. Þetta er skýrasta dæmið um vinnubrögð hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, vinnubrögð sem fá fullkomna falleinkunn.

Við erum með nokkrar breytingartillögur og ég bið um að þær verði (Forseti hringir.) kallaðar til 3. umr.