141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

tekjustofnar sveitarfélaga.

291. mál
[21:37]
Horfa

Atli Gíslason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að frumvarpið er seint fram komið. Það er það seint fram komið að sveitarfélög eru búin að gera fjárhagsáætlanir sínar og þess vegna er þeim erfitt um vik að breyta.

Í frumvarpinu er horft til tekna af útsvörum og fasteignagjöldum. Fasteignagjöld eiga að standa undir kostnaði við skipulags- og byggingarmál. Þau eru mjög mismunandi eftir stærð sveitarfélaga. Ég hef spurt mig í framhaldinu hver séu hin ríku sveitarfélög í því samhengi. Til dæmis borgar eitt lítið sveitarfélag á Vesturlandi meira í þennan skipulagsþátt en tekjurnar eru af fasteignagjöldum. Þetta hefur ekki verið skoðað frekar en fleiri þættir sem ég hef spurt um vegna þess að við gáfum okkur ekki nógan tíma til að skoða málið. Það var afgreitt með töluvert miklu hraði og mörgum spurningum er ósvarað.

Ég hef í ljósi þess sem ég hef sagt ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.