141. löggjafarþing — 61. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[23:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gerð ítarleg úttekt á sölu bankanna 1998–2003. Það hafa verið skrifaðar um það bækur, bókaflokkar. Það var gefið út yfirlit í níu tölusettum bindum af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis yfir það hvað það mistókst gjörsamlega, (Gripið fram í.) algjörlega, fullkomlega. Hvernig það mistókst frá A til Ö.

Ég kalla það ekki söluferli eða sölumeðferð þegar bankarnir voru afhentir vildarvinum flokkanna á þeim tíma og gleymdist að rukka fyrir þá. Þeir voru ekki greiddir að fullu. Hvers konar ferli er það og hvers konar regluverki var farið eftir þá? Svo eru það þingmenn og formaður Sjálfstæðisflokksins sem koma hér upp og segja í ræðu áðan: Það er óþarfi að setja um þetta lög því að við ætlum að fella það.

Af hverju gera þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki breytingartillögur við frumvarpið? Reyna að koma því í þá átt sem þeir vilja og koma með einhverja aðra hugmynd um það en að ríkið ætli að eiga ráðandi hlut, a.m.k. 70%, í Landsbankanum. Eru menn andsnúnir því? Ég hef ekki hugmynd um það því það koma engar breytingartillögur. Sjálfstæðisflokkurinn segir ekkert um það hvernig hann vill hafa frumvarpið og hvers konar lög hann vill setja um þetta. Það eina sem kemur fram er að fella tillögurnar, fella frumvarpið og setja ekki nokkurn einasta lagagrunn undir sölumeðferð á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum ef til sölunnar kemur, sem er algjörlega óvíst.