141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:49]
Horfa

Róbert Marshall (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í fyrirvara sem fylgir nefndaráliti með málinu geri ég grein fyrir skoðunum mínum á einstökum virkjunarhugmyndum, þá sérstaklega er varða virkjunarkosti á Reykjanesinu sem ég tel ofaukið í nýtingarflokki. Ég vil taka það fram að hér er verið að stíga mikilvægt skref í þá átt að forða samfélagslegum átökum, deilum um mikil tilfinningamál sem því miður hafa leitt til ákvarðana í gegnum tíðina um virkjanir sem ekki hafa skilað þjóðfélaginu og samfélaginu öllu miklum hagnaði eða arði. Við eigum að reyna að hverfa af þeirri braut.

Hér er verið að færa svo mikilsverð landsvæði í verndarflokk að allir þeir sem láta sig náttúruvernd varða eiga að fagna þessu máli. Ég geri það og við eigum að vera stolt af því að samþykkja þessa áætlun í dag.