141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Umhverfisverndarsinnar kunna að syrgja þennan dag því að hér er verið að rjúfa faglega sátt um virkjanir á Íslandi. Það gefur virkjunarsinnum hins vegar tækifæri seinna til að virkja meira en fagleg sátt náðist um. Þeir munu væntanlega njóta öflugs stuðnings erlendra náttúruverndarsamtaka sem munu krefjast þess eftir ekki mörg ár að við Íslendingar nýtum hreina orku okkar til hins ýtrasta til að hindra frekari hitnun jarðar. Þá væri gott að hafa faglega sátt í rammaáætlun og styð ég þá hugmynd hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að aftur verði gerð tilraun til að ná faglegri sátt eftir kosningar, ef ekki fyrr.

Það eru hrópandi dæmi í heiminum, skógareldar í Ástralíu, fellibyljir í Bandaríkjunum, bráðnun heimskautsins sem segja okkur að jörðin er að hitna og við Íslendingar verðum að líta upp úr eigin nafla og sjá það í alheimssamhengi og nýta orku okkar eins og skynsamlegt (Forseti hringir.) er og mögulegt.