141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:24]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það liggur fyrir að Orkuveitan hefur haft áform um gengi Hverahlíðarvirkjunar en framkvæmdir eru ekki hafnar fyrir utan boranir á árunum 2006 og 2007. Upplýst er að tafir á verkefnum skýrast af þremur þáttum: Fjárhagsstaða Orkuveitunnar leyfir ekki slíka fjárfestingu, ekki liggur fyrir fyrirvaralaus samningur um orkusölu og ekki hafa verið gerðar breytingar á aðalskipulagi Ölfuss. Þar fyrir utan eru þau vandamál uppi sem komið hafa fram um manngerða jarðskjálfta, brennisteinsmengun, mengun grunnvatns o.s.frv.

Orkuveita Reykjavíkur hefur í raun tekið þá ákvörðun að setja Hverahlíðarvirkjun í biðflokk þar til lausn er komin á þeim vandamálum sem ég hef nefnt. Ég spyr hv. þingmenn: Hvað er því til fyrirstöðu að Alþingi setji Hverahlíðarvirkjun í biðflokk, ekki verndarflokk, heldur í biðflokk í samræmi við afstöðu Orkuveitu Reykjavíkur?