141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér tala menn mikið um að fylgja hinu faglega ferli, þar á meðal umsagnarferlinu sem allir þingmenn samþykktu. Á minnisblaði orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins er farið yfir þá kosti sem ekki voru í orkunýtingarflokki og segir þar, með leyfi forseta:

„Af framangreindum virkjunarkostum má telja að mest rök séu fyrir því að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk.“

Seinna í sömu umsögn segir, eftir að umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar:

„Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar komu fram upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að Hagavatnsvirkjun rýri gildi svæðisins fyrir ferðamenn og jafnframt að virkjunin sé líkleg til að draga úr uppblæstri og sandfoki og auka möguleika á landgræðslu. … Með vísan til þessa, og að með framkvæmdinni er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, þykir rétt að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk.“

Það er merkilegt að í þessari umræðu voru menn sammála um að það skyldi farið í alla þessa framkvæmd. Allt jarðraskið var skynsamlegt, en þingmenn stjórnarinnar ætla að vera á móti því að nýta það til þess að skapa arð (Forseti hringir.) og fjármuni. Það er furðuleg umhverfisvernd.