141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ef maður lítur á atkvæðatöfluna liggur það fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir hafa sammælst um að fella allar breytingartillögur sem fram hafa komið. Þeir hafa talað um að það sé gert á faglegum forsendum. Ég vitna aftur í hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, 1. þm. Suðurkjördæmis, sem flestar tillögurnar ná til, Oddnýjar Harðardóttur, 2. þm. Samfylkingarinnar á Suðurlandi. Þetta eru skilaboð þessara hv. þingmanna til heimasveita sinna, til héraða sinna, að hlusta ekki á þau sterku rök sem komið hafa fram hjá faghópunum, hjá verkefnisstjórninni, hjá heimamönnum, í niðurstöðu þeirra, þau virða það allt að vettugi. Er það verkefni okkar hér á Alþingi að virða svo skýr skilaboð að vettugi, svo fagleg vinnubrögð sem hér hefur verið talað fyrir og allir hafa rómað, (Gripið fram í.) og taka ekkert tillit til þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram? (Forseti hringir.) Það er eyðilegging á þeirri vinnu sem hefur farið fram um rammaáætlun. Það verður til þess að við munum (Forseti hringir.) þurfa að endurskoða áætlunina hið fyrsta. Það verður að vinda ofan af þessari vitleysu strax eftir kosningar.