141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir fyrirspurnina og ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram. Ég vil þó byrja á að segja að það er mjög mikilvægt, eins og kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það sé alveg ljóst fyrir íbúa á stöðum sem þurfa að reiða sig á ríkisstyrkt flug að eitthvert framtíðarplan liggi fyrir um hvernig að því verði staðið. Að sjálfsögðu ræður ríkisvaldið því hvort flogið er á þessa staði bæði með stefnumörkun um það á hvaða staði er flogið og með því að tryggja í það fjármagn. Ef fé er ekki tryggt er það að sjálfsögðu heimatilbúinn vandi ríkisvaldsins.

Fyrst ég er kominn upp langar mig að benda líka á að það er að sjálfsögðu ríkisstofnun sem ákveður hvort flugvöllurinn á Sauðárkróki verður opnaður, það er ekki einhver einkaaðili úti í bæ. Því þarf ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að það verði gert.

Síðan vil ég líka koma því á framfæri, frú forseti, að það eru býsna mörg flugfélög á Íslandi sem sinna flugi með einum eða öðrum hætti, þar á meðal áætlunarflugi. Það kann að vera að það þurfi að endurmeta allan þann kostnað sem ríkið miðar við í sínum greiðslum og (Forseti hringir.) hugsanlega flýta útboðum að einhverju leyti.