141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var send á vegum þingsins. Það var ekki meiri hluti innan ríkisstjórnarflokkanna, Vinstri grænna og Samfylkingar, fyrir því að sækja um aðild. Þess vegna gat þetta ekki orðið ríkisstjórnarmál. Það átti að fara inn sem þingmannamál og síðan átti afgreiðsla meiri hluta þingsins að ráða ferð. Svona var afgreiðslan á sínum tíma.

Þegar menn reyna núna að gera það að ríkisstjórnarmáli er það þvert á það sem var í upphafi, enda blasir það við. Fimm þingmenn Vinstri grænna bókuðu andstöðu við ríkisstjórnarmyndun á þessum forsendum.

Ég var látinn fara úr utanríkismálanefnd vegna þess að ég studdi tillögu þar um að fresta aðildarviðræðum við ESB og ég er einarðlega þeirrar skoðunar að það eigi að taka þetta mál til endurskoðunar og stöðva það. Sú tillaga á að fara inn í þingið. Hvers vegna þora menn ekki að láta mál eins og þetta fara inn í þingið? Ég spyr. (Gripið fram í: Á að kjósa þrisvar um þetta?) Þess vegna hefði það verið eðlilegt framhald.

Hvert verður nú framhaldið? Jú, hæstv. núverandi atvinnuvegaráðherra hefur dregið og dregið að gefa út makrílkvóta fyrir Íslendinga. Nú verður honum ekki stætt á að draga það lengur. Við vitum alveg að Evrópusambandið mun ekkert fagna því frekar en þegar ég gaf út makrílkvótann 30. janúar fyrir réttu ári. En þarna eru hinir íslensku hagsmunir sem má ekki draga lappirnar með eins og við höfum kannski nú orðið vitni að.

Ég veit að það eru fyrirhugaðir fundir í landbúnaðarráðuneytinu um áframhaldandi vinnu við samninga og samningsafstöðu og undirbúning og aðlögun íslensks landbúnaðarkerfis (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu. Verður það verk stöðvað? Við skulum sjá til. Verður peningunum skilað? Á borðinu liggja meira að segja drög að samningsafstöðu (Forseti hringir.) í landbúnaði sem gengur þvert á vilja og hagsmuni bænda og það sem ég lagði til á sínum tíma. En kannski þora menn ekki að fara með það í dagsljósið enda á það ekkert erindi þangað.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann og biður þingmenn um að virða hann.)