141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[16:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Oft er ég bara ánægð í þessum sal með þann karl sem var uppi í pontu áðan, en ég get ekki sagt að ég sé voðalega glöð núna þegar ég stend hér og fer yfir þetta mál. Ég skil hugsjónir hans og hef oft rætt, bæði hér inni og annars staðar í þinginu, um hugsjónir hans varðandi að berjast gegn fíkninni sem tengist spilum og póker. En það sem ég get ekki tekið undir er sú leið sem hæstv. innanríkisráðherra ætlar að fara. Ef berjast á gegn þessari fíkn, er þá betra að fíknin sé fyrir hendi af því að verslað sé af innlendum aðilum? Eins og hæstv. ráðherra kom inn á erum við að færa spil á netinu til Íslands. Allt í lagi. Ég tel það hins vegar óeðlilegt skref. Við eigum að vera tengd veraldarvefnum, ekki bara hérna innan lands. Er þá fíknin betri af því að keypt er af innlendum aðilum ef við erum að reyna að ná til þeirra og hjálpa þeim sem berjast við spilafíkn?

Frú forseti. Er ég í andsvari eða er ég í ræðu? Út af tímanum.

(Forseti (ÞBack): Andsvari.)

Þetta er mín fyrsta spurning. Í öðru lagi vil ég fá á hreint: Nær þetta líka til lottósins, lottóspilamennskunnar? Ég vil sérstaklega spyrja um það. Sumir eru með lottómiða og ef þetta nær til lottósins þá vil ég … (Forseti hringir.)

Á ég þá ekki tvær mínútur?

(Forseti (ÞBack): Þær eru liðnar.)

Nei, þær eru ekki liðnar. Ég átti að minnsta kosti 50 sekúndur eftir.

(Forseti (ÞBack): Já, þá hinkrar forseti andartak, en það er ólag með bjölluna.)

Já, allt í fína, bestu þakkir.

Þá vil ég spyrja: Nær þetta greiðslumiðlunarbann þá til greiðsluþjónustunnar sem fólk er í með lottóspilamennskuna? Það þarf náttúrlega fyrst að fá að vita hvort þetta nái til lottósins.

Í þriðja lagi segir ráðherra að þetta kosti ekki tiltölulega mikið. Er samt ekki rétt skilið hjá mér að þetta kosti um 50 millj. kr.? Þeir aðilar sem tilheyra DAS, Dvalarheimili aldraðra sjómanna, SÍBS og Happdrætti Háskóla Íslands munu borga þessa happdrættisstofu, eða er það misskilningur hjá mér? Þá fer 50 millj. kr. minna til þeirra vegna aðgerða hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.)

Ég mun koma að seinni spurningum mínum í seinna andsvari.

(Forseti (ÞBack): Þá eru tvær mínútur liðnar og forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa ráðherra og þingmenn réttilega.)