141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að það er á hreinu að það voru spilakassar og spilavélar sem hæstv. ráðherra var að tala um að banna. Það er gott að það er skýrt en ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með einu. Hann þarf að gera betur til að selja mér hugmyndina um Happdrættisstofuna. Mér finnst í sjálfu sér sjálfsagt, og tek undir honum með það, að þeir sem höndla með happdrætti og reka hvað sem það heitir nú í dag, leggi sitt af mörkum til þess að koma spilafíklum til hjálpar. Það er enginn að gagnrýna það og ég hygg að ef ráðherrann hefði hlustað á fyrra andsvar mitt hefði hann tekið eftir því að það er ýmislegt sem mér hugnast í þessu frumvarpi þótt Happdrættisstofa geri það ekki.

Mér finnst mjög leitt ef ráðherra tekur það þannig að verið sé að ráðast á frumvarpið í heild þótt ég hafi efasemdir um Happdrættisstofu. Hæstv. ráðherra og þeir sem skrifa þetta frumvarp verða einfaldlega að gera betur ef á að selja mér þá hugmynd að það sé þörf fyrir þessa stofnun, fyrir þann hluta. Ég er ekki að segja að innihald frumvarpsins sé vonlaust eða galið, það hef ég aldrei sagt. Ég hef hins vegar efasemdir um að það sé rétt að færa það yfir í sérstaka stofnun. Hæstv. ráðherrann sagði að það væri hluti af verkefnum í ráðuneytinu sem ætti að fara þangað en ef ég skil það rétt er líka hluti frá sýslumönnum sem á að gera það. Ég vil hins vegar vara við því að þetta sé sett í þann farveg. Það er best að fullyrða sem minnst en í einhverjum tilfellum alla vega hefur það sýnt sig að þegar ný ríkisstofnun er sett á fót á hún það til að vaxa og þenjast út. Er það endilega það sem við viljum fá fyrir rekstur ríkissjóðs í dag?

Það hefur ekkert að gera með innihald frumvarpsins. Ég held að hægt sé að ná þeim markmiðum fram sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir þingið án þess að búa til nýja ríkisstofnun utan um málið. Því er ég er að reyna að koma á framfæri og vonast til að sé orðið (Forseti hringir.) skýrt.