141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, ég var einu sinni formaður BSRB og hafði sitthvað að segja um samfélagsþjónustu og opinberan rekstur. Þar hef ég alltaf sagt að engin starfsemi, hvort sem hún er á vegum hins opinbera eða annarra aðila, á að vera eilíf. Hún á stöðugt að vera háð endurmati og endurskoðun.

Varðandi hugmyndir um stjórnlyndi hafna ég því algjörlega að ég aðhyllist stjórnlyndi, þvert á móti. Ég hef fáar bækur lesið eins oft og bók sem kom út í Bretlandi árið 1859 og hét á frummálinu On Liberty eða Frelsið, eftir John Stuart Mill. Inntakið í Frelsinu er fyrst og fremst að sérhver einstaklingur á að vera frjáls að því marki að hann skaði ekki aðra og það er leiðarljós í mínu lífi, hvort sem það er í mínu pólitíska lífi eða öðru lífi. Ég vil hafa það að leiðarljósi.

Það sem við erum hins vegar að ræða hérna er starfsemi sem hætt er við að skaði fólk, og hvernig við getum á ábyrgan hátt dregið úr þeim skaða. Það undarlega gerist að í umræðum hér á Alþingi heyrast allt aðrir tónar en ég hef heyrt þegar ég hef rætt við þá sem vinna innan þessarar starfsemi og þekkja kannski betur til þess vanda sem hlýst af spilafíkninni og hefur lagt marga einstaklinga og margar fjölskyldur í rúst.

Við erum að taka agnarbrot af milljarðaveltu og setja það inn í aðhalds- og eftirlitsstarf á svipaðan hátt og best hefur verið gert með Norðurlandaþjóðunum og einhverja fjármuni í forvarnastarf (Forseti hringir.) og til aðstoðar því fólki sem hefur lent í vondum og erfiðum vanda út af þessum málum og (Forseti hringir.) við erum að beina því inn í farveg hjá aðilum á borð við SÁÁ.