141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að hefja ræðu mína nákvæmlega þar sem hv. síðasti þingmaður lauk andsvari sínu, hv. þm. Sigríður Andersen, og minnast orðaskipta í málinu áðan um að við ættum að fara varlega. Ég held að þær varúðarreglur sem við þurfum að setja fram eigi nákvæmlega að gilda í þessu máli.

Með þessu er ég alls ekki að segja að við eigum ekki að sporna við spilafíkn, að við eigum ekki að vera með forvarnir og fræðslustarf. Sú leið sem hæstv. ráðherra er að fara hugnast mér ekki og ég held að hún muni á endanum ekki ná öðrum tilgangi en að þenja út ríkisbáknið. Þetta segi ég meðal annars vegna reynslu minnar eftir að hafa setið í fjárlaganefnd og fylgt eftir þeim stofnunum sem hafa verið settar á laggirnar, það virðist aldrei vera nóg að gert, þær þurfa alltaf meira og geta aldrei sinnt hlutverki sínu, sérstaklega þær stofnanir sem tengjast forvarnamálum. Ég mun koma að því á eftir hvaða leiðir ég sé til þess að vinna gegn aukinni spilafíkn ef við eigum að nálgast það verkefni út af fyrir sig.

Það er margt sem maður hnýtur um í þessu máli. Fyrir það fyrsta vil ég byrja á að segja að það er alveg ljóst að með þessu er ríkisstjórnin að stíga stórt skref, það er náttúrlega ekki bara hæstv. innanríkisráðherra sem stendur í þessu. Það er hins vegar merkilegt að sjá engan þingmann Samfylkingarinnar taka þátt í þessu máli. Þar er enginn sem hefur áhuga á að ræða þetta mál. Ég veit ekki hvort það er staðfest sem maður hefur heyrt á göngum, að margir samfylkingarmennirnir séu bullandi óánægðir með þetta mál og ætli bara að leyfa hæstv. innanríkisráðherra að setja (Gripið fram í.) það fram. Fínt, allt í lagi, þá kemur það einfaldlega í ljós, m.a. í umræðu innan allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vona að þeir samfylkingarmenn sem eru gjarnan í því að puðra hér út í loftið um óánægju í hinu og þessu málinu — en síðan standa þeir ekki alltaf í lappirnar þegar á að stoppa mörg árans mál sem ríkisstjórnin leggur fram. Hæstv. ráðherra talar vel að merkja um sátt og að það ætti að reyna að vinna þetta í samkomulagi við aðila á happdrættis- og getraunamarkaði, að innanríkisráðuneytið hefði vinsamlegast lækkað sínar hugmyndir um prósentuna sem á að renna til Happdrættisstofu. Þetta minnir á aðferðafræðina sem hæstv. ríkisstjórn setti fram um skattlagningu á ferðaþjónustu þar sem byrjað var í hæstu hæðum. Það er eins og menn gangi alltaf út frá því að síðan verði ákveðin umræða í samfélaginu og þá náðarsamlegast dregur ríkisstjórnin í land og miskunnar sig yfir þá umræðu og þá einstaklinga sem bæði eiga hlut að máli og hafa eitthvert vit á.

Þetta er að mínu mati vond leið. Hæstv. ráðherra svaraði ekki áðan þegar ég spurði hann hvort þetta þýddi ekki örugglega að það færu 50 millj. kr. minna í samtök eins og Landsbjörgu, SÍBS, DAS og Happdrætti Háskóla Íslands. Mér skilst að Íslensk getspá og Íslenskar getraunir muni borga að minnsta kosti helminginn af þessu gjaldi. Hverjir standa að því? Ég trúi því ekki að öllu óreyndu að þessir aðilar séu allir samþykkir þessari leið.

Þeir hafa staðið að rannsóknum, kostað þær og viljað gera allt til að draga úr óæskilegum samfélagslegum áhrifum sem eru afleiðing mikillar fíknar, hvort sem er í þessu máli, spilafíknar, áfengisfíknar eða annarrar fíknar í samfélaginu. Við erum með ágæta reynslu á öðrum sviðum. Ég nefni menntakerfið þar sem við sjáum í mælingu eftir mælingu frá 1991 sem meðal annars fyrirtækið Rannsóknir & greining hefur fylgt eftir markvisst í öll þessi ár að með skilvirku og massífu forvarnastarfi innan skólakerfisins, ekki síst í eldri bekkjum grunnskóla, í 10. bekk, og í framhaldsskólanum hefur áfengis- og vímuefnaneysla minnkað. Það er í algjöru samhengi við markvisst aukna fræðslu ráðuneytis menntamála og félagsmálaráðuneytis á sínum tíma og í samvinnu við sveitarfélögin, æskulýðssamtök, íþrótta- og tómstundafélög víða um land. Það er hægt að fara þessa leið. Ráðherra reyndi að segja: Við erum að sinna þessu svolítið innan ráðuneytisins. Við erum að færa þessa starfsemi út í Happdrættisstofu. Af hverju er þá ekki hægt að millifæra þær fjárhæðir? Innanríkisráðuneytið hefur sett þetta á sinni aðalskrifstofu í starfsemina innan ráðuneytisins, m.a. í skilvirka forvarnastarfsemi sem hefur skilað sér markvisst inn í skólana eins og ég benti á áðan.

Ég held að það skipti miklu máli. Það hefur meðal annars komið fram í því erfiða máli sem við höfum rætt um kynferðisbrotin. Það er farið með þau brot eins og öll önnur, brot, forvarnir, fíkn o.fl., að best er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, þ.e. byrja eins snemma og hægt er á forvörnum. Þess vegna tel ég að við eigum að nýta skólakerfið en við þurfum ekki að stofna sérstaka stofnun um þetta mál þó að ég virði þennan metnað ráðherra. Eins og ég gat um áðan í andsvari hefur hann sýnt mikinn vilja og metnað til þess og hefur sína pólitísku sýn til að vinna gegn þessari fíkn. Hann telur, og það er kannski ekki óeðlilegt í ljósi fortíðar hans sem formanns BSRB, að leiðin til að vinna gegn slíku liggi í gegnum ríkisstofnun. Þar hef ég bara aðra pólitíska sýn og kannski líka ákveðna reynslu í gegnum skólakerfið sem hægt er að benda á sem tæki til forvarna.

Í mestu vinsemd bendi ég ráðherra á að það eru aðrar leiðir færar til að gera þetta. Ég velti líka fyrir mér sem meðal annars hv. þm. Sigríður Andersen kom inn á um greiðslukortin og greiðslukortaþjónustuna, sérstaklega í samhengi við þau orð sem hæstv. ráðherra lét falla áðan. Hann sagði nákvæmlega að ætlunin væri að hafa þetta stofnun sem fylgdist með því sem fólk gerði á netinu. Ég ætla honum ekki að þetta verði netlöggan sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon barðist fyrir fyrir síðustu kosningar, en þetta er ákveðin tegund af eftirliti, neteftirliti sem ráðherra innanríkismála er að beita sér fyrir. Hann fær einkaaðila, kortafyrirtækin, til að fylgjast nákvæmlega með því hvað Jón og Gunna eru að kaupa sér á netinu, hvort þau spila póker, kaupa sér undirföt, kannski djörf úr enskum búðum, eða hvað þau eru að gera í sínu einkalífi. Þá velti ég fyrir mér hvort ráðuneyti innanríkismála hafi haft samvinnu við Persónuvernd. Í fljótu bragði sá ég það ekki þegar ég las yfir greinargerðina en hæstv. innanríkisráðherra hlýtur að geta upplýst það. Ég mun þá biðja um að Persónuvernd verði kölluð fyrir nefndina til að fara yfir málið.

Auðvitað er ekkert óeðlilegt að við spyrjum hvort þetta standist EES-samninginn. Flutningsmaður þessa frumvarps segir hreint og klárt í ræðustóli Alþingis að ætlunin sé beinlínis að beina þessu inn á innri íslenskan markað, ekki hafa þetta tengt við EES-svæðið, og þá er ekkert óeðlilegt að menn spyrji: Stenst það EES-samninginn að fara þá leið að mismuna happdrættisfyrirtækjum og getraunafyrirtækjum með þessum hætti?

Ég hef líka beðið um annað fordæmi frá Norðurlöndum en það sem segir um að þetta sé svipað lagaumhverfi og er byggt á í Noregi. Ég spyr um fordæmi um greiðslumiðlunarbannið á netinu, þ.e. að það verði bannað að beita greiðslukortinu til að taka þátt í póker. Er nákvæmlega sama fyrirkomulagið í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi?

Það er margt að athuga við þetta mál. Fyrir utan, eins og ég gat um áðan, er enginn annar samfylkingarþingmaður í salnum til að ræða frumvarpið en við munum ræða þetta við þann flokk, m.a. í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég ætla að vitna aðeins í eina grein sem fer alveg ágætlega yfir þetta þó að hún geri það á svolítið kaldhæðinn hátt. Það er penni í Fréttablaðinu sem ég les iðulega. Hann getur einhvern veginn fest betri orð í kringum þetta mál, sem og önnur, en ég og það er Pawel Bartoszek sem í nóvember á síðasta ári ræddi um happdrættisstofu. Með leyfi forseta ætla ég að fara stuttlega inn í hana:

„Stundum eru nafngiftir opinberra stofnana þannig að halda mætti að einhver hefði lesið bókina 1984, séð þar nöfnin „Sannleiksráðuneyti“ og „Friðarráðuneyti“ og hugsað með sér: „Þetta er sniðugt. Gerum eins.“

Opinberum „stofnunum“ fækkar. Opinberum „stofum“ fjölgar:

jafnréttisstofa, neytendastofa … Kannski að menn haldi að sæta stofuendingin fái fólk til að gleyma því að margar þessara stofnana fara með vald til að rannsaka, banna, sekta og fyrirskipa. Nýjasta stofan er svokölluð happdrættisstofa. Það stendur nefnilega til að reyna að hindra fólk í því að spila póker á netinu. Þar af leiðandi þarf einhverja stofnun til að fylgjast með því hvað fólk gerir á netinu og hverju fólk eyðir peningunum sínum í. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Ég ætla að hlæja. Hlátur er vörn líkamans við ótta.

Margt er reynt að gera til að sannfæra fólk um nauðsyn þess að banna fólki að leika sér á netinu. Í inngangi að nýlegri skýrslu um fjárhættuspil á Íslandi hélt Ögmundur Jónasson eftirfarandi fram:

„Ágengasta spilaformið í seinni tíð eru svo fjárhættuspil á netinu sem soga þegar til sín milljarða í dýrmætum gjaldeyri og eyðileggja enn dýrmætari líf þeirra einstaklinga sem ánetjast þessum vágesti.“ Síðar kom fram í upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu að útgjöldin væru 1,5 milljarðar. Ég spurði í grein hér í Fréttablaðinu í mars sl. hvernig sú tala væri fengin. Í júlí birti Ögmundur svo svargrein til mín þar sem hann sagði meðal annars:

„Því er til að svara að talan um fé sem fer í fjárhættuspil á netinu byggist á áætlun kortafyrirtækjanna. Þetta er því engin ágiskun mín“ — þ.e. Ögmundar Jónassonar, hæstv. innanríkisráðherra — „heldur ískalt mat þeirra aðila sem bestar hafa upplýsingarnar.

Kortafyrirtækin telja sig geta staðhæft að heildarvelta Íslendinga í erlendri netspilun hafi verið um 1,5 milljarðar króna árið 2011.“

Ég sendi fyrirspurn á innanríkisráðuneytið og bað um aðgang að þeim gögnum sem ráðherrann nefnir. Það eru nefnilega margar spurningar í þessu. Eru milljarðar króna í töpuðum gjaldeyri orðnir að 1.500 milljónum í kortaveltu? Sumir græða stundum á því að spila póker, er það dregið frá í þeirri tölu? Eru þetta öll fyrirtækin? Hvaða aðferðafræði nota þau til að flokka útgjöldin? Aðalmálið er samt bara að í opinberri umræðu er ekki boðlegt að vísa til gagna sem enginn getur sannreynt. Ég sendi fyrirspurnina sama dag og Ögmundur birti grein sína, 16. júlí. Ég bíð enn svars.

Í sömu grein sagði Ögmundur jafnframt: „Samkvæmt upplýsingum sem innanríkisráðuneytið fékk frá Noregi má ætla að kortafyrirtæki vanáætli þessar fjárhæðir.“

Þetta hljómar eins og mjög fróðlegar upplýsingar. Koma þær frá norska ríkinu? Norskum háskóla? Norskum vini ráðherra? Og hvaða upplýsingar voru þetta? Útreikningar? Skýrsla? Sjónvarpsþáttur?

Ég bað ráðuneytið einnig um aðgang að þessum óljósu, en þó norsku, upplýsingum. Svörin í þessu tilfelli hafa einnig látið á sér standa.

Það þykir mér dálítið undarlegt. Ég verð að segja að ég hef almennt ágæta reynslu af því að senda ráðuneytum fyrirspurnir. En í þessum málum er fátt um svör.“

Síðan heldur Pawel áfram. Mér finnst þetta mikilvægur þáttur, hann talar um íslenska hólfið og rifjar upp, með leyfi forseta:

„Ítarleg rannsókn hefur leitt í ljós að 0,8% Íslendinga eiga við líklega spilafíkn að etja. Þetta, ásamt óljósum og ósannreyndum útgjaldatölum, er notað sem rök fyrir því að banna fólki að spila póker á netinu. Hugsanlega á að loka á pókersíður, loka á greiðslur til þeirra og setja á fót sérstaka stofnun til að fylgjast með því að bönnin haldi.

Þetta er vont. Því fleiri slík bönn sem eru sett, þeim mun líklegra er að netið hólfist niður og vefsíður bjóði almennt ekki þjónustu sína nema á fáum og stórum markaðssvæðum af ótta við að verða brotleg við lög einhverra annarra ríkja. Þar með verðum við fátækari. Við munum sitja á þeim fáu íslensku síðum sem lúta íslenskum lögum og borga með okkar íslensku kreditkortum fyrir þá íslensku þjónustu sem hinir íslensku aðilar vilja veita okkur Íslendingum hér á Íslandi. Og íslenskar stofnanir munu sjá til þess að við förum okkur ekki að voða.

Nei, fyrirgefið, ekki íslenskar stofnanir. Íslenskar stofur.“

Svo mörg voru þau orð Pawels Bartoszeks. Það er margt í þeim sem ég get tekið undir, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað núna vegna þessa máls. Við í allsherjar- og menntamálanefnd munum að sjálfsögðu fara gaumgæfilega yfir þetta. Ég bendi enn og aftur á að það eru til aðrar leiðir til að berjast gegn þessari spilafíkn sem ráðherra er eðlilega umhugað um að berjast gegn. Við höfum góða reynslu, m.a. úr forvarnastarfi í menntakerfinu, innan tómstundastarfsins víðs vegar í landinu, og við eigum ekki að draga þessa fjármuni. Þó að hæstv. ráðherra segi þá vera litla eru þeir stórir. 50 milljónir eru miklir peningar í hinu stóra samhengi þegar allar hjálparstofnanir reiða sig á (Forseti hringir.) frjáls framlög, bæði frá ríkinu en ekki síst einstaklingum úti í samfélaginu.