141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[17:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt að gerast. Fólk sem þekkir þetta af raun er einmitt að fylgjast með núna. Ég veit það vegna þess að ég þekki til.

Hins vegar tek ég undir það sem hæstv. ráðherra sagði. Við eigum alls ekki að afgreiða eitthvað út af borðinu. Það sem ég vil segja er að við megum ekki afgreiða þetta mál með því að þykjast trúa því að það sé lausnin á því hvernig við eigum að berjast gegn spilafíkn. Þess vegna hvet ég ráðherra til þess að tala miklu frekar við okkur sem erum í nefndinni og marga fagaðila um hvernig við getum nálgast þetta öðruvísi en í gegnum Happdrættisstofu. Ég trúi ekki að lykillinn að leiðangri hæstv. ráðherra sé að berjast gegn þessu og setja svo á laggirnar ríkisstofnun. Ég tel markmiðið göfugt, þ.e. að berjast gegn þessu, en leiðina sem hæstv. ráðherra velur tel ég mjög varhugaverða. Þess vegna tek ég undir það sem hann sagði, það hefur ekki verið gert nógu vel í þessu að skoða hvaða aðrar leiðir við viljum fara. Ég benti á aðrar leiðir í minni ræðu og frábið mér málflutning um að við sem gagnrýnum þessar leiðir séum þá á móti því að það eigi að taka á þessu, (Gripið fram í.) á móti því að tala um þetta, á móti því að við eigum fara í forvarnastarf af því að við segjum ekki já og „vessgú“ við ríkisstofnun sem á að heita Happdrættisstofa.

Ég trúi því heldur ekki að óreyndu, núna þegar um tveir mánuðir eru til þingloka fyrir kosningar, að þetta verði eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Ég trúi því ekki. Við bíðum eftir stórum og miklum málum frá ríkisstjórninni sem hún hefur boðað en það bólar ekkert á þeim. Þvert á móti skýtur þetta upp kollinum. Það hlýtur að mega gagnálykta út frá því að þetta sé eitt af mikilvægustu málum ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Ég vona að svo sé ekki en við eigum að sjálfsögðu að fara gaumgæfilega og málefnalega yfir þetta eins og við gerum með flest mál.