141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann líti yfirleitt á stjórnarskrána og ákvæði hennar um heimild til að stofna stéttarfélög og til þess að vera utan félaga. Hv. þingmaður sagði að það væri gott að hafa einhvern aðila til að semja við og hagsmunasamtök, en í rauninni hefur allt kerfið byggst á því að menn eru skyldaðir með lögum til að borga í ákveðin stéttarfélög. Það má vel vera að það sé hagræði í því að ræða við þessi opinberu ríkisstéttarfélög. En hvernig horfir þetta við einstaklingnum og frelsi hans til þess að vera utan félaga? Hvernig lítur hv. þingmaður á frelsi einstaklingsins til að standa utan félaga? Metur hann það einskis að útgerðarmenn og sjómenn hafi verið skyldaðir til að borga inn í þetta kerfi eða til að borga inn í önnur félög? Hvernig lítur hann á búnaðargjaldið þar sem bændur eru allir með tölu skyldaðir til að borga félagsgjald, einhvers konar skatt, til félagasamtaka sem eru, ja, ég veit ekki hvort þau eru opinber eða hvað þetta er eiginlega? Þetta er að minnsta kosti ekki stjórnsýsla.

Venjan er sú að menn geta stofnað félög til að berjast fyrir hagsmunum sínum, en ekki í þessu. Sjómenn geta ekki stofnað félög til að berjast fyrir hagsmunum sínum og bændur ekki heldur því að þeir skulu greiða í ákveðið félag og við það félag skal ríkið semja.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig reiðir frelsi einstaklings af í þessum hildarleik?