141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

ökutækjatryggingar.

439. mál
[16:59]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vona að svo sé. Það hefur verið glímt talsvert við þetta snúna mál og hér er sem sagt lögð til tiltekin leið í þeim efnum, ef ég hef lært þetta rétt en þessi mál hafa ekki áður verið í mínum höndum. Verið er að reyna að búa um það að það sé að sjálfsögðu eigandinn sem er í skírteininu. Það sé engu að síður hægt, og lögin geri ráð fyrir því, að gera samning þar sem skyldan til tryggingar færist yfir á umráðamann ökutækisins á slíku tímabili ef hann er umráðamaður þess en ekki eigandi sökum fjármögnunarsamnings eða af því um líkum ástæðum. Síðan eigi þá eigandinn endurkröfurétt ef ekki er staðið við ákvæði þess háttar samnings og það kemur til þess að ökutækið er á einhverjum tíma ótryggt, það leggst á vantryggingagjald og allt það.

Það er búið að glíma talsvert við þetta og ég hygg að það sé eitt af því sem var rækilega skoðað í framhaldi af þinglegri umfjöllun um málið á 140. löggjafarþingi. Ég var fullvissaður um að menn væru búnir að gera sitt besta þarna til þess að reyna að taka á því vandamáli sem sannarlega skaut upp kollinum eins og allir þekkja, þegar það varð mikill plagsiður að menn höfðu umráðarétt yfir bílum sem voru formlega séð í eigu annarra og reyndar stundum um það deilt samanber dómstóla hver væri í sjálfu sér eigandinn og getur það ráðist af skjalagerð á hverjum tíma. Alla vega held ég að komi þessi rammi inn í lögin ætti mönnum í framtíðinni að vera sæmilega hægur leikur að ganga þannig frá samningagerð í slíkum tilvikum að þetta væri sæmilega skýrt og skapaði ekki vandamál.