141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir það. Ég held að hér sé lagt upp með skynsamlega og færa leið, svo er auðvitað álitaefni hvaða árangri við náum, reynslan ein mun sýna okkur það og kenna. Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan í framsögu sinni munum við endurskoða fyrirkomulagið og lögin mjög reglubundið þannig að hægt sé að meta hvort þetta sé of matskennt og opið eða hvort þetta haldi og hægt að beita þessu þannig að áhrif séu af.

Það er auðvitað erfitt að ímynda sér hvaða aðstæður gætu orðið til þess að þessu ákvæði væri beitt og kannski ekki sanngjarnt að ætlast til þess að þingmenn eða ráðherrar dragi nákvæmlega upp þá mynd. Ég er þó alveg sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að ef staðan væri sú að við værum með eitt ríkisútvarp með helmingshlutdeild á markaði og svo einn ljósvakamiðil hlyti það fyrirkomulag að vera mjög mikið álitaefni. Síðan er það samspilið við tæknina, erlendar sjónvarpsstöðvar í gegnum gervihnetti og netið og allt þetta — voðin er orðin miklu flóknari en hún var og þess vegna er kannski ekki alveg jafnmikill háski í dag af smæðinni og fákeppninni, sem svo sannarlega er á þessum örmarkaði.

Ég tek líka undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni um Ríkisútvarpið. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál og fjalla um þau í einhvers konar samlegð af því að þetta styðst svo hvort við annað. Of stórt ríkisútvarp er líka neikvætt og skaðlegt og það þarf að koma því þannig fyrir að því sé hóflega stillt upp. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við stefnum í rétta átt með þessu samspili, að takmarka að einhverju leyti umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, þó ekki að miklu leyti, aðallega í gegnum kostun og fleira, þannig (Forseti hringir.) að við tryggjum að minnsta kosti bærilega stöðu fyrir einkarekna ljósvakamiðla.