141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar og fyrri ræðu hennar. Hvað varðar endurskoðun fjölmiðlalaga í Noregi þekki ég það ekki en ég ímynda mér að hún sé sama marki brennd og hér, þ.e. að Noregur innleiddi sömu tilskipun og við gerðum með lögunum 2011 og henni fylgir skýr krafa um endurskoðun þar innan þriggja ára. Mig grunar að það sé sama ferlið en ég þekki ekki þá framvindu.

Hvað varðar dreifikerfið sem hv. þingmaður kom að í ræðu sinni liggur líka fyrir að það er eitt af því sem hafa þarf í huga þegar við skoðum samkeppnisaðstæður á fjölmiðlamarkaði, þ.e. samspil fjarskiptafyrirtækja, sem byggt hafa upp dreifikerfi um landið, og fjölmiðlafyrirtækja og hvernig eignarhaldi á þessum fyrirtækjum er háttað, svo dæmi sé tekið. Það getur auðvitað skipt máli því að þegar við ræðum eignarhald á fjölmiðlum í þeim tæknivædda heimi sem við búum í í dag, þá er það auðvitað algengara upplegg að fjarskiptafyrirtækin byggi upp dreifikerfi og geti þannig öðlast mjög mikil völd á markaði þó að þau reki ekki beinlínis fjölmiðladagskrá. Ég tel því eðlilegt að það sé líka undir þegar við ræðum markaðsráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaði, hvort til að mynda fjarskiptafyrirtæki reki fjölmiðla eða ekki, því að það getur spilað inn í umræðuna um eignarhald.