141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands.

[13:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í spurningu hans að ég hef tekið vel í málaleitan hreyfihamlaðra hvað þessi mál varðar. Af því tilefni setti ég saman samráðshóp um aðgengi fatlaðs fólks að náttúru Íslands sem var skipaður bæði fulltrúum Öryrkjabandalagsins og velferðarráðuneytis, Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytis, vegna þess að ég taldi mikilvægt að hafa í heiðri þá meginreglu að ekkert sé rætt um fatlaða án aðkomu þeirra.

Starfshópurinn taldi að það væri viðurkennt að fatlað fólk og hreyfihamlað gæti þurft að aka utan vega til að geta notið náttúrunnar til jafns við aðra ferðamenn. Hins vegar kemur fram í niðurstöðu hópsins að alltaf þurfi að huga að því hversu viðkvæm íslensk náttúra sé og að akstur utan vega geti valdið langvarandi skemmdum á náttúrunni. Þarna stöndum við frammi fyrir því viðfangsefni að standa bæði vörð um réttindi hreyfihamlaðra til að njóta náttúrunnar og rétt náttúrunnar til að njóta verndar. Þetta er mjög mikilvægt jafnvægi og getur verið mjög vandmeðfarið. Í frumvarpi til náttúruverndarlaga, sem nú liggur fyrir Alþingi og hv. þingmaður vísaði sérstaklega í, er sérstakt ákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti veitt slíkar undanþágur. Ég tel afar mikilvægt að þessi undanþágumöguleiki sé fyrir hendi á grundvelli þessara réttinda.

Þá er í frumvarpinu líka ákvæði um að í umsýslu- eða verndaráætlunum friðlýstra svæða sé gerð sérstök grein fyrir aðgengi fatlaðra á viðkomandi svæðum. Í náttúruverndarfrumvarpinu er því búið umtalsvert betur um rétt fatlaðra til aðgengis að náttúru Íslands en í núverandi lagaumhverfi (Forseti hringir.) og ég vænti þess að hv. þingmaður sé mér liðsmaður í þeirri réttarbót sem þar stendur fyrir dyrum.